Listalundur

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fagnar 70 ára afmæli í ár. Af því tilefni verður efnt til listviðburðar í Höfðaskógi nú í júní. Um 25 listamenn munu skapa verk í skóginum. Öll hafa verkin skírskotun til skógarins á einn eða annan hátt. Verkefnið hefur hlotið nafnið "Listalundur". Formleg opnun er laugardaginn 25. júní kl. 17.00. Opnunarhátíðin fer fram í og við bækistöðvar félagsins og Þallar við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Boðið verður upp á tónlist, ljóðlist og léttar veitingar ásamt leiðsögn um Listalund. 

Leiðarlýsingu að gróðrarstöðinni Þöll má finna undir flipanum "Þöll" hér til hægri á heimasíðunni. Þar sem bílastæði eru takmörkuð er mælst til þess að fólk hjóli, gangi eða fái far upp eftir. Hægt er að leggja við Hvaleyrarvatn og ganga þaðan. Einnig eru stæði við kartöflugarðana á Beitarhúsahálsi við Hvaleyrarvatnsveg. Einnig verður hægt að leggja bilum á stæðinu að Værðarlundi og við sumarhús félagsins í Höfðaskógi. Hliðið að Þöll verður lokað fyrir bílaumferð.

Afmælisblað félagsins "Þöll" kemur út bráðlega og verður borið út inn á öll heimili í Hafnarfirði. Þar er nánari kynning á "Listalundi" og öllum þátttakendum. Kynningarbækling um "Listalund" má nálgast nú þegar í Þöll. Verið velkomin við opnunarhátíð "Listalundar" laugardaginn 25. júní kl. 17.00. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar).

Fuglaskoðun laugardaginn 28. maí 2016

 

Fuglaskoðunarferð félagsins verður laugardaginn kemur 28. maí. Lagt verður af stað frá Þöll við Kaldárselsveg kl. 10.00. Gangan tekur um 2 klukkustundur. Leiðsögumenn verða Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson. Allir velkomnir. Hafið með ykkur sjónauka. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar).

Opnunartími Þallar í maí 2016

 Gróðrarstöðin Þöll er opin í maí virka daga frá kl. 09.00 - 18.00. Um helgar, laugar- og sunnudaga, frá kl. 10.00 - 17.00. Síminn er: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar). Fyrirspurnir má senda á Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. . Félagar í skógræktarfélögum og félagar í Garðyrkjufélagi Íslands fá 15% afslátt af öllum plöntum. 

Hvítasunnuhlaup Hauka

Hið árlega Hvítasunnuhlaup Hauka fer fram annan í Hvítasunnu þ.e. mánudaginn 16. maí kl. 10.00 - 13.00. M.a. er hlaupið um skóglendi í upplandi bæjarins sem er í umsjón félagsins. Stígar sem starfsmenn félagsins hafa lagt og viðhaldið eru hluti hlaupabrautanna í þessu hlaupi. Haukarnir styrktu félagið um kr. 150.000,- á aðalfundi skógræktarfélagsins nú í mars síðastliðnum en styrkurinn er hugsaður til að kosta lagfæringar á stígum í upplandinu. Hvítasunnuhlaup Hauka var kosið annað besta utanvegahlaupið á landinu í fyrra. Milli 400 - 500 hlauparar hafa skráð sig til þátttöku í ár. Nánari upplýsingar um hlaupið má sjá á heimasíðu þess: www.hvitasunnuhlaup.is og á Fb síðu hlaupsins.

Þöll opnar aftur laugardaginn 7. maí 2016

 Gróðrarstöðin Þöll opnar aftur laugardaginn 7. maí 2016. Opið verður frá kl. 10.00 - 17.00. Einnig verður opið sunnudaginn 8. maí frá kl. 10.00 - 17.00. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið: Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. . Síminn er: 555-6455 eða 894-1268. Félagar í skógræktarfélögum og Garðyrkjufélagi Íslands fá 15% afslátt af öllum plöntum. 

Fámennt en góðmennt

 

Milli 10 - 15 manns mættu í skógargöngu laugardaginn var 23. apríl. Jónatan Garðarsson formaður félagsins var leiðsögumaður og sagði frá örnefnum og sagði sögur frá svæðinu. Gengið var frá Kaldárseli með Undirhlíðum, upp Kýrskarð og upp á Undirhlíðirnar og niður í Skólalund og með hlíðunum til baka að Kaldárseli. Boðið var upp á kaffi og með því í Þöll að göngu lokinni. Næsta ganga félagsins verður fuglaskoðun í Höfðaskógi laugardaginn 28. maí kl. 10.00.

Vorganga um Undirhlíðar 23. apríl 2016

 

Félagið stendur fyrir göngu um Undirhlíðar laugardaginn 23. apríl 2016 kl. 11.00. Gengið verður frá Kaldárseli með Undirhlíðum og inn í Skólalund og til baka. Gangan tekur um tvær klukkustundir. Leiðsögumaður er Jónatan Garðarsson formaður félagsins. Gangan er hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar "Bjartir dagar" sem standa frá 20. - 24. apríl. Allir velkomnir. Upplýsingar um viðburði á vegum félagsins í ár má sjá hér á heimasíðunni undir flipanum "dagskrá". 

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2016

Haldinn laugardaginn 9. apríl í Apótekinu, Hafnarborg, Strandgötu 34, Hafnarfirði.

Kl. 14.00 – 15.00
• Venjuleg aðalfundarstörf.

Kaffihlé

Ráðstefna – Notagildi upplandsins og framtíð skógræktar í bæjarlandinu

Kl. 15.00 – 17.00
• Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs ávarpar fundinn.
• Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri – Árangur í skógrækt, við getum gert betur.
• Þráinn Hauksson landslagsarkitekt – Útivistartækifærin í upplandi Hafnarfjarðar.
• Pétur Svavarsson hlaupari – Utanvegahlaup um svæði Skógræktar.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar).

Furufræi safnað í Daníelslundi

 

Starfsmenn félagsins hjálpuðu nýverið (11. mars 2016) við söfnun á stafafurufræi í Daníelslundi í Borgarfirði. Stafafuran í Daníelslundi er gróðursett á 7. áratug síðustu aldar og er af kvæminu Skagway, Alaska. Nýbúið er að grisja furuna en þar sem skortur er á stafafurufræi á landinu þótti upplagt að blása í herlúðra og hvetja fólk til að safna fræi af felldu trjánum en annars getur reynst erfitt að ná fræi þar sem mest er af því efst í krónunni. Talsverðu magni af könglum var safnað. Könglarnir eru svo verkaðir hjá Skógrækt ríkisins, Tumastöðum, Fljótshlíð. Stafafura er mest selda íslenska jólatréið. Stafafura er einnig prýðilegt timburtré og vex furan vel í tiltölulega rýru mólendi, hraunum, melum o.þ.h. Á Myndinni má sjá Árna Þórólfsson lengst til vinstri, þá Guðmund Sigurðsson, Aðalstein Sigurgeirsson, Þorkel Þorkelsson, Hlyn Gauta Sigurðsson og Benjamin Dohn. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Grisjað og snyrt í Skólalundi í Undirhlíðum

 

Síðustu daga hafa starfsmenn félagsins ásamt Þorkatli Þorkelssyni unnið að grisjun, kvistun og annarri snyrtingu skógarins í Skólalundi í Undirhlíðum en félagið fékk styrk til verksins frá Landgræðslusjóði á síðasta ári. Skólalundur einnig nefndur Litli-Skógarhvammur er elsta ræktaða skóglendi í umsjón félagsins en þar hófst trjárækt árið 1930 fyrir tilstuðlan Ingvars Gunnarssonar kennara við Barnaskóla Hafnarfjarðar en hann fór með nemendur sína í gróðursetningarferðir þangað upp eftir. Ingvar var fyrsti formaður félagsins þegar það var stofnað árið 1946 eða fyrir 70 árum síðan.

Stærstu tréin í Skólalundi eru hátt í 20 m há. Mest ber á sitkagreni og stafafuru. Villt birki er einnig áberandi. Talsvert er af berg- og fjallafuru. Nokkur blágreni tré eru einnig í Skólalundi. Á efri myndinni má sjá Jökul Gunnarsson kvista furu í Skólalundi. Á neðri myndinni sem tekin er austarlega í Skólalundi er horft til vesturs út yfir hraunbreiðinu (Bruni). Fremst á myndinni er evrópulerki, sitkagreni til hægri og bergfura neðst. Myndirnar eru teknar af Steinari Björgvinssyni 22. febrúar 2016.

 

 

Þrestir úr Leikskólanum Norðurbergi í heimsókn

Leikskólinn Norðurberg hefur lengi notað skóginn til útivistar og kennslu. Elstu nemendur skólans eða sú deild sem nefnist "þrestir" komu t.d. í gær þriðjudaginn 23. febrúar og áttu góða stund í skóginum með sínum leiðbeinendum. Þau fengu svo að borða nestið sitt í bækistöðvum félagsins. Það hefur færst í vöxt að leikskólar noti skóglendi til útivistar og kennslu í sínu daglega starfi. Norðurberg hefur verið þar í fararbroddi hér í Hafnarfirði að minnsta kosti. Á myndinn sjást nokkrir þrestir bæði skógar- og svartþrestir á tröppunum við Þöll/bækistöðvar Skógrækarfélags Hafnarfjarðar (mynd: Steinar Björgvinsson).

Grisjað í góðviðrinu

Síðustu daga hafa starfsmenn félagsins unnið að grisjun, kvistun og snyrtingu í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn. Einstaklega vel hefur viðrað til útivinnu síðustu daga. Elstu tréin í Höfðaskógi eru gróðursett um eða rétt fyrir árið 1960. Myndin er tekin af Beitarhúsahálsi til suðurs yfir Hvaleyrarvatn fimmdaginn 11. febrúar 2016.