Útivist við Hvaleyrarvatn

Það er hægt að njóta útivistar við Hvaleyrarvatn allt árið um kring. Á vorin fjölgar fólki við vatnið sem sækir í útiveruna í þessari kyrrlátu kvos. Þegar trjágróðurinn vaknar af vetradvala skrýðist landið og laufþekjan klæðir hlíðarnar fagurgrænum lit. Á sumrin tekur við fjólublár litur blómstrandi lúpínubreiðanna. Síðsumars lengjast skuggarnir þegar sól fer að lækka á lofti og birtuspilið á vesturhimni verður stórbrotið. Haustlitirnir við Hvaleyrarvatn eru engu líkir og á veturnar þegar vatnið er ísi lagt er hægt að renna sér fótskriðu eða skoða hvernig frostið gyllir strá og greinar, steina og börð.  

Veiðimenn bora vakir í ísinn og renna færi fyrir fisk, en þegar vorar æfa þeir köst og gera sig klára fyrir sumarveiðina. Skólahópar njóta útivistar- og umhverfisfræðslu við vatnið jafnt að vori sem hausti og heilu fjöskyldurnar gera sér glaðan dag við Hvaleyrarvatn.

Á heitum sumardögum er hægt að baða sig í vatninu eða sigla á smábátum. Sumir koma til að grilla pylsur eða annað góðgæti, aðrir ganga umhverfis vatnið. Þegar regn ýrir úr lofti eða vindur blæs er notalegt að þræða skógarstígana og njóta þess að teyga að sér gróðurangan og hlusta á fuglasöng. Nýjasti landneminn í skóginum er hinn smávaxni Glókollur sem er um 9 sentímetrar á lengd og vegur aðeins um 5-7 grömm. Þrestir og aðrir spörfuglar kunna vel við sig í skóglendinu sem þekur hlíðar og hálsa. Það er áhugavert skoða ólíkar tegundir sem hafa verið gróðursettar og merktar í trjásýnilundinum í Höfðaskógi. Þá er ekki úr vegi að líta á plöntu úrvalið í gróðrastöðinni Þöll og láta starfsfólkið gefa góð ráð.  

Þeir sem vilja reyna á sig og ganga á brattann ættu að fara upp á Selhöfða og horfa yfir svæðið eða upp á Stórhöfða þar sem útsýnið er óvenju gott. Það er líka hægt að ganga á Húshöfða, Miðhöfða eða Fremstahöfða. Í leiðinni er skynsamlegt að gæta að  búsetuminjum, t.d. á tanganum undir Selhöfða, þar sem tóftir þriggja selja leynast í sinunni. Á Beitarhúsahálsi undir Húshöfða er tóft beitarhússins sem hálsinn dregur nafn sitt af. Nokkru norðar er gamall stekkur og á flestum höfðunum eru gamlar vörður. Á Selhöfða er fallin fjárborg og það er full ástæða til að hafa augun hjá sér og reyna að lesa í landið. Gamlir stígar og þjóðleiðir liggja meðfram hraunflákunum og það eru víða áhugaverðar minjar en saga þeirra er óðum að falla í gleymsku.

Um Höfðalandið liggur grófur bílvegur sem tengir saman ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og landnemaspildurnar. Það er rétt að skilja bílinn eftir hjá þjónustuhúsinu við vestanvert vatnið og ganga þennan bílslóða. Landið lítur allt öðruvísi út þegar gengið er á tveimur jafnfljótum. Leiðirnar virðast vera lengri og það er margt sem ber fyrir augu sem ekki sést nógu vel út um bílrúðurnar. Það er áhugavert að ganga frá Seldalshálsi þar sem tæplega aldarfjórðungs gamlar furur skarta grænum lit og fara um Seldal og Langholt. Yfir sumartímann litar blámi lúpínunnar allt umhverfið, en á veturnar er þetta sem eyðisvæði. Þegar horft er á Stórhöfðann er hann víða berangurslegur með blásnar móbergsklappir og rofabörð. Frá Langholti sést hvar mosavaxið helluhraun breiðir úr sér og neðan þess er gamli Kaldárfarvegurinn tiltölulega sléttur og sæmilega gróinn. Í suðvestri standa Arnarklettar upp úr kargahrauni Óbrinnishólabruna og Sveifluháls teygir sig út við sjóndeildarhring. Það er sama hvert litið er, það er nóg fyrir augað að nema á þessu litríka landsvæði endalausra andstæðna.          
                    
Jónatan Garðarsson